Bolungavík : fjórar framkvæmdir mögulegar vegna Covid19

Horft yfir Lækjarbryggju í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Vestfjarðastofa óskaði eftir fyrir helgi upplýsingum frá Bolungavíkurkaupstað um þær framkvæmdir sem möguleiki væri á því að setja af stað á 3 – 5 mánuðum. Var Vestfjarðastofa að afla upplýsinga fyrir stjórnvöld, sem undirbúa nú aðgerðir til að vinna gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum af Covid19 veirunni.

Í minnisblaði sem Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sendi Vestfjarðastofu eru tilgreinar fjórar framkvæmdir.

Fasteignaverkefni í Bolungavík

Bæjaryfirvöld hafa unnið að nýrri húsnæðisáætlun og þar kemur fram að umtalsverður skortur er á íbúðum, einkum minni íbúðum. Er unnið að stofnun fasteignafélags í Bolungavík sem mun vinna að því að breyta 2.200 fermetra húsnæði í eigu sveitarfélagsins sem stendur ónotað í íbúðarhúsnæði. Verkís hefur gert rgeiningu og kemst að þeirri niðurstöðu að hægt sé að gera 20 nýjar íbúðir fyrir um 20 – 25 m.kr. hver. Framkvæmdakostnaðurinn yrði um 200 þús. kr. pr. fermetra og er það talið arðbært verkefni miðað við íbúðaverð í Bolungavík.

Unnt er að hefja framkvæmdir innan 2 -3 mánaða við áhættulítið og arðbært verkefni sem mun þurfa mikið vinnuafl.

Útsýnispallur á Bolafjalli og bundið slitlag á veginn

Annað verkefni sem bent er á í minnisblaðinu er útsýnispallur á Bolafjalli, sem nýlega var veitt 160 milljónum króna til í úthlutun til ferðamannastaða. Framkvæmdir hefjast strax í sumar og er stefnt að því að þeim verði lokið sumarið 2021.

Þá er bent á að það væri hagkvæmt og arðbært að leggja bundið slitlag á veginn upp á fjallið. Kostnaður er áætlaður 50 milljónir króna. Unnt yrði eftir það að halda veginum opnum 8 -10 mánuði á ári.

Hafnarframkvæmdir

Í þriðja lagi er bent á að fyrirhugaðar eru hafnarframkvæmdir fyrir 274,5 milljónir króna á árunum 2020-2024 við endurbyggingu Grundargarðs og vegna framkvæmda við Lækjarbryggju. Hægt væri að flýta báðum verkunum og hefjast handa nú í sumar.

Bundið slitlag á Syðridalsveg

Í fjórða lagi er nefnt að tilbúið hefur verið árum saman það verkefni að leggja bundið slitlag á Syðridalsveg en skort hefur fé til framkvæmdanna.

DEILA